Eyjamenn unnu auðveldan sjö marka sigur á Selfyssingum er liðin mættust í Olísdeild karla í dag. Eyjamenn voru sterkari aðilinn allan leikinn og lokatölur 32:25 eftir að staðan var 15:14 í hálfleik.
Rúnar Kárason, Arnór Viðarsson og Sigtryggur Daði Rúnarsson skoruðu allir fimm mörk en markaskor liðsins dreifðist vel. Petar Jokanovic varði 14 skot í markinu. Hjá gestunum var Einar Sverrisson markahæstur með níu mörk þar af sex úr vítum.
Heimamenn höfðu tök á leiknum í upphafi og voru einungis undir í stöðunni 0:1, vörn Eyjamanna stóð mjög vel á köflum og komust Selfyssingar lítt áleiðis. Staðan var einungis 15:14 í hálfleik eftir fínan kafla gestanna undir lokin, þar sem þeir nýttu yfirtöluna vel.
Í byrjun seinni hálfleiks var svipað uppi á teningnum og í fyrri hálfleik, Eyjamenn komust fljótlega í 21:16 og var því ljóst í hvað stefndi. Elmar Erlingsson, sonur Erlings Richardssonar, þjálfara ÍBV, átti mjög flottan leik en hann er einungis 17 ára gamall. Hann skoraði fjögur mörk, gaf tvær stoðsendingar og fiskaði víti í leiknum.
Selfyssingum tókst að minnka muninn í tvö mörk þegar um tíu mínútur voru eftir af leiknum en eftir það gáfu Eyjamenn í og sigldu heim öruggum sjö marka sigri. Dagur Arnarsson lék ekki með ÍBV vegna smávægilegra meiðsla en Selfyssingar eru að endurheimta sína meiddu menn og þurfa að slípa leik sinn aðeins.
ÍBV er í 2. - 4. sæti deildarinnar ásamt Val og Stjörnunni en þessi þrjú lið eiga leik inni á Haukana sem eru einu stigi ofar í efsta sæti með 13 stig. Selfyssingar eru í 8. sæti deildarinnar með 6 stig en þeir hafa unnið FH, Víkinga og HK.
Mörk ÍBV: Rúnar Kárason 5, Arnór Viðarsson 5, Sigtryggur Daði Rúnarsson 5, Elmar Erlingsson 4, Ásgeir Snær Vignisson 3, Kári Kristján Kristjánsson 3, Theodór Sigurbjörnsson 2, Andrés Marel Sigurðsson 2, Róbert Sigurðarson 2, Dánjal Ragnarsson 1.
Mörk Selfoss: Einar Sverrisson 9, Guðmundur Hólmar Helgason 6, Tryggvi Þórisson 3, Árni Steinn Steinþórsson 3, Hergeir Grímsson 2, Karolis Stropus 1, Richard Sæþór Sigurðarson 1.