KA og Haukar spiluðu kl. 16 í Olís-deild karla í handbolta í dag. Leikurinn var í 9. umferð Íslandsmótsins og var spilað í KA-heimilinu. KA hafði tapað fimm að síðustu sex leikjum sínum og urðu að ná sér í stig til gegn toppliðinu til að koma sér ofar í töfluna en liðið var í níunda sæti fyrir leik. Þetta var þriðji leikur Haukanna á sjö dögum en þeir voru í hörkuleikjum gegn ÍBV á mánudag og gegn Val á fimmtudag.
Haukarnir mættu grimmir til leiks, vel stemmdir eftir notalega stund á Bláu könnunni í miðbæ Akureyrar. Haukar komust strax í 5:2. Þeir héldu svo forskoti fram að hálfleik og var staðan 18:14 þegar leikurinn var hálfnaður.
Fyrri hálfleikur var gríðarlega hraður og voru komin nítján mörk í hann eftir rúmar þrettán mínútur, en þá var staðan 11:8 fyrir Hauka. Liðin hægðu þá örlítið á sér og þá fækkaði mörkunum. Töluvert var um mistök í báðum liðum en mest munaði um markvörsluna. Aron Rafn Eðvaldsson varði jafnt og þétt allan fyrri hálfleikinn, alls ellefu skot, en KA-markmennirnir voru komnir með eina vörslu samtals þegar síðasta mínúta fyrri hálfleiks gekk í garð. Þá náði Bruno Bernat að verja víti og tvöfalda vörslu hálfleiksins.
Annars mallaði Haukavélin ágætlega. Heimir Óli Heimisson var illviðráðanlegur á línunni og Atli Már Báruson kom sterkur til leiks um miðjan hálfleikinn. Ólafur Gústafsson skaut mikið hjá KA en hann var ekki að finna netmöskvana þar sem Aron Rafn verði hvað eftir annað frá honum.
Vörn KA-manna þéttist heldur betur í seinni hálfleiknum Haukar voru í miklum vandræðum með að finna glufur á henni. Haukat töpuðu mörgum boltum og á sama tíma gekk sóknarleikur KA fullkomlega upp. KA minnkaði muninn í 22:21 og hefði getað jafnað í næstu sókn. Haukarnir hirtu hins vegar boltann og skoruðu í staðinn. Upp frá því var leikurinn í höndum Hauka og forusta þeirra tvö til fjögur mörk þar til KA skoraði fimm mörk í röð og komst yfir í fyrsta skiptið í leiknum, 29:28.
Þá hreinlega virtist búið á tankinum hjá KA og Haukar sigldu aftur framúr. Haukar skoruðu fjögur síðustu mörk leiksins og unnu því 32:29. Gríðarlega svekkjandi fyrir KA-menn sem höfðu svo sannarlega barist til síðasta blóðdropa. Markvarsla liðsins var hræðileg allan leikinn og gerði hún hreinlega út um vonir heimamanna um sigur. Hvað eftir annað stóð vörnin sína plikt en svo kom skot frá Haukum út erfiðu færi sem söng í netinu. Markverðirnir vörðu samtals sex skot, þar af fjögur sem skiluðu KA boltanum.
KA er enn í níunda sætinu eftir þennan leik en Haukar hafa, sem stendur fjögurra stiga forskot á toppnum.