„Það vantaði bara smá klókindi í restina“ 

Jónatan Magnússon, lengst til hægri, á hliðarlínunni í kvöld.
Jónatan Magnússon, lengst til hægri, á hliðarlínunni í kvöld. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

KA var grátlega nærri því að ná stigi eða stigum gegn Haukum í Olís-deild karla í handbolta í dag. KA var undir allan leikinn en fimm mörk í röð kom KA yfir í fyrsta skipti þegar rúmar þrjár mínútur voru eftir. Haukar skoruðu hins vegar fjögur síðustu mörk leiksins og unnu leikinn 32:29. 

Jónatan Magnússon, þjálfari KA, var því sársvekktur eftir leik en það var þó margt sem hann get verið ánægður með. Varnarleikur KA í seinni hálfleik var t.d. mjög góður og var Jónatan sammála því. 

„Mér fannst varnarleikur okkar heilt yfir og á stórum köflum góður í þessum leik. Það vantaði bara smá klókindi í restina og þá hefðum við tekið stig og unnið leikinn. Þetta var því svekkjandi. Það var meira gott en slæmt í þessum leik. Í síðasta leik, gegn Aftureldingu, þá voru ákveðnir hlutir góðir en aðrir ekki. Núna vorum við nær þessu, að sýna það sem býr í liðinu. Ég er stoltur af baráttunni allan seinni hálfleikinn og kraftinum sem við sýndum. Svo bara föllum við í blálokin á tveimur atriðum varnarlega og tveimur sóknarlega. Brottvísun, ekki brottvísun. Það voru stór atriði þegar upp var staðið. Til þess að vinna þá þarf ískaldan haus á lokakaflanum í svona leik. Þetta situr því aðeins í mér.“ 

Áður en kom að lokamínútunum þá leit út fyrir að þið væruð að fara í smá Öskubuskuævintýri með því að hirða sigur eftir að hafa verið undir allan leikinn. Stemningin var öll ykkar megin, baráttan og vinnslan í vörninni var búin að skila ykkur langþráðu forskoti. Það var búið að skrifa handritið en vantaði þennan herslumun. 

„Það eina sem hægt er að gera núna er að taka með sér það sem við gerðum vel yfir í næsta leik og æfingavikuna. Við verðum að byggja ofan á það. Við erum náttúrulega drullusvekktir, enda ætluðum við að vinna Haukana. Til þess þarf jafnan frábæra frammistöðu og við vorum nálægt því í dag.“ 

Þessi vörn sem þið spiluðuð allan seinni hálfleikinn. Hefði hún ekki átt að kynda undir markvörðunum og gera þeim lífið auðveldara. Markvarslan var ekki góð, sex varin skot samtals í leiknum. 

„Við hefðum viljað fá meiri markvörslu. Það kemur bara í næsta leik. Með svona varnarleik vonumst við eftir betri markvörslu næst. Þetta þarf að tengja saman og þá förum við að ná í stig. Við trúum því að liðið sé smátt og smátt að verða betra og samæfðara. Það eru framfarir frá leik til leiks en þetta snýst um að safna stigum og vonandi koma þau í næstu leikjum.“ 

Talandi um næstu leiki þá eigið þið fjóra mikilvæga leiki fram að langa fríinu um jólin og í janúar. Næstu fjórir leikir eru gegn liðunum sem eru með jafn mörg stig og þið eða færri. Þið verðið væntanlega dýrvitlausir í þeim leikjum. 

„Við verðum að mæta með kassann úti í næsta leik á Selfossi. Mér fannst við gera það í dag. Það væri rosa gott að fá tvö stig í næsta leik og það er það sem við stefnum að“ sagði vígreifur þjálfarinn að lokum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert