Lilja Ágústsdóttir átti stórleik fyrir íslenska U18-ára landslið kvenna í handknattleik þegar liðið vann þriggja marka sigur gegn Slóveníu í fyrsta leik sínum í undankeppni EM 2023 í Belgrad í Serbíu í dag.
Leiknum lauk með 24:21-sigri íslenska liðsins en Lilja gerði sér lítið fyrir og skoraði átta mörk í leiknum, þar af tvö af vítalínunni.
Staðan var jöfn í hálfleik, 9:9, en íslenska liðið seig hægt og rólega fram úr í síðari hálfleik og Slóvenum tókst aldrei að ógna forystu íslenska liðsins.
Inga Dís Jóhannsdóttir og Tinna Sigurrós Traustadóttir skoruðu fjögur mörk hvor fyrir Ísland og Embla Steindórsdóttir þrjú mörk.
Ingunn María Brynjarsdóttir varði sjö skot í marki íslenska liðsins og Ísabella Schöbel Björnsdóttir sex skot.
Ásamt Íslandi leika Slóvakía og Serbíu einnig í riðlinum en liðið sem hafnar í efsta sæti riðilsins tryggir sér sæti í lokakeppninni.
Ísland mætir Slóvakíu á morgun og mætir svo Serbíu á fimmtudaginn kemur.