„Hann var munurinn á liðunum í kvöld“

Gunnar Malmquist Þórsson gefur ekkert eftir í varnarleiknum.
Gunnar Malmquist Þórsson gefur ekkert eftir í varnarleiknum. Unnur Karen

Gunnar Magnússon, þjálfari Aftureldingar, var svekktur eftir 27:25 tap gegn Val í Olísdeild karla í handbolta í kvöld.

„Það er svekkjandi að tapa. Ég er óánægður með seinni hlutann í fyrri hálfleik, þegar við missum þá full langt fram úr okkur. Við rauða spjaldið hikstum við lengi og það var ákveðinn vendipunktur. Við höfum ekki annan línumann þannig við vorum í smá basli með að leysa það.“

Þrándur Gíslason Roth fékk að líta beint rautt spjald í fyrri hálfleik þegar hann tók heldur hraustlega á móti Benedikt Gunnari Óskarssyni. Eins og Gunnar sagði sjálfur var Afturelding ekki með annan línumann svo hornamaðurinn Gunnar Malmquist Þórsson spilaði m.a. stóran hluta leiksins sem línumaður.

„Sú lausn kom bara til á staðnum. Einar Ingi [Hrafnsson] meiðist í Vestmannaeyjum og verður frá lengi, svo Þrándur var okkar eini línumaður í dag. Það var því svekkjandi að missa hann svona snemma af velli og eftir það hrundi þetta aðeins.“

„Á þessum kafla sem við misstum þetta voru þeir að skora mikið af mörkum úr hröðum upphlaupum. Þá fór sóknin að hiksta og kom smá panikk hjá okkur. Við vorum svolítið lengi að ná áttum aftur en fannst við ná því í seinni hálfleik og komum þá aðeins til baka, en Valsmenn voru bara heilt yfir betri en við í kvöld.“

Björgvin Páll Gústafsson var maður leiksins í kvöld en hann reyndist Aftureldingu heldur betur erfiður. Björgvin varði 20 skot í leiknum, þar af tvö vítaskot.

„Eigum við ekki bara að segja það hreint út, að það er erfitt að tapa leik með svona markvörslu, því miður. Hann var bara frábær. Hann er náttúrlega með góða vörn fyrir framan sig en svo tekur hann allt þetta auka, hraðaupphlaup og víti. Hann var munurinn á liðunum í kvöld.“

Gunnar Magnússon, þjálfari Aftureldingar.
Gunnar Magnússon, þjálfari Aftureldingar. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert