Ósigrandi Ísfirðingar

Lið Harðar sem hefur byrjað tímabilið mjög vel.
Lið Harðar sem hefur byrjað tímabilið mjög vel. Ljósmynd/Handknattleiksdeild Harðar

Handknattleikslið Harðar frá Ísafirði hélt í gærkvöld áfram sigurgöngu sinni í 1. deild karla, Grill 66-deildinni, þar sem liðið trónir á toppnum með fullt hús stiga að sex umferðum loknum.

Harðarmenn mættu Kórdrengjum í Digranesi í Kópavogi og þurftu að hafa fyrir sigrinum en lokatölur urðu 31:29 fyrir Ísfirðingana eftir að staðan í hálfleik var 19:13, þeim í hag.

Hörður er með 12 stig á toppi deildarinnar en ÍR og Fjölnir eru næst á eftir þeim með 10 stig hvort. Hörður vann einmitt góðan útisigur á ÍR, 37:36, um fyrri helgi.

Guntis Pilpuks var markahæstur Harðarmanna í Digranesi í gærkvöld með 6 mörk en Axel Sveinsson og Þráinn Ágúst Arnaldsson skoruðu 5 mörk hvor og Daníel Wale Adeleye fjögur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert