Valur sigraði Aftureldingu 27:25 í Olísdeild karla í handbolta í Origo-höllinni í kvöld. Leikurinn var mjög skemmtilegur áhorfs en að lokum voru það heimamenn sem fóru með sigur af hólmi.
Fyrri hálfleikurinn var hin mesta skemmtun. Eftir jafna byrjun fékk þáverandi markahæsti leikmaður Aftureldingar í leiknum, Þrándur Gíslason Roth, beint rautt spjald fyrir að taka harkalega á Benedikt Gunnari Óskarssyni með þeim afleiðingum að sá síðarnefndi skall með hausinn í gólfið. Eftir rauða spjaldið fóru Valsmenn á 5:1 kafla og náðu smá forskoti, þar sem hornamennirnir Finnur Ingi Stefánsson og Vignir Stefánsson drógu vagninn. Afturelding missti þá þó aldrei of langt frá sér og staðan í hálfleik 12:9 heimamönnum í vil.
Heimamenn byrjuðu seinni hálfleikinn að miklum krafti. Þeir skoruðu hvert hraðaupphlaupsmarkið á fætur öðru og juku forskotið jafnt og þétt. Lið gestanna beit þó frá sér og fylgdu í humátt. Björgvin Páll Gústavsson átti sannkallaðan stórleik og gulltryggði að lokum 27:25 sigur Vals.
Tumi Steinn Rúnarsson var markahæstur í liði Vals með sex mörk en maður leiksins var engu að síður Björgvin Páll sem varði 20 skot, þar af tvö víti. Hjá Aftureldingu var Þorsteinn Leó Gunnarsson markahæstur með átta mörk.
Með sigrinum fara Valsmenn upp fyrir FH í annað sæti deildarinnar. Þeir eru nú með 14 stig á meðan Afturelding er í sjötta sæti með 10 stig.
Valsmenn fá Selfyssinga í heimsókn í næsta leik en Afturelding fær FH í heimsókn í Mosfellsbæinn.