„Okkur vantaði leiðtoga“

Patrekur Jóhannesson, þjálfari Stjörnunnar.
Patrekur Jóhannesson, þjálfari Stjörnunnar. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Patrekur Jóhannesson þjálfari Stjörnunnar var að vonum frekar vonsvikinn eftir 32:28 tap gegn ÍBV í Olísdeild karla í handbolta í kvöld. 

„Núna er ég orðinn rólegur, það er korter síðan leikurinn kláraðist. Fyrst eftir leik er maður alltaf mjög svekktur og tapsár.“

„Seinni hálfleikur hjá okkur var ekki nógu góður. Í fyrri hálfleik spilum við fimm-einn vörn sem gekk mjög vel og skoruðum 16 mörk. Sóknarlega sækjum við rétt á Eyjamenn, þar sem að þeir eru veikastir. Í seinni hálfleik erum við ekki eins ákveðnir varnarlega, hver svo sem ástæðan fyrir því er. Það er enginn sem tekur frumkvæðið, það vantaði leiðtoga varnarlega. Sóknarlega erum við annað hvort ekki að spila jafn vel og í fyrri hálfleik eða Eyjamenn þéttu sínar raðir.“

Leikurinn var risastór fyrir bæði lið hvað toppbaráttuna varðar. Eyjamenn fóru með sigrinum upp að hlið Vals í annað til þriðja sæti en skilja Stjörnuna eftir í fimmta sæti.

„Það er alltaf sterkt að vinna og alltaf fúlt að tapa, það breytist aldrei. Ég vissi það alveg að með sigri færum við aðeins ofar í töfluna. Annars skiptir það nú mestu máli hvar þú ert í töflunni þegar mótið klárast. Við erum búnir að vera í vandræðum hvað meiðsli varðar en höfum samt spilað marga góða leiki. Þessir strákar sem hafa verið að spila hafa verið frábærir.“

„Í dag fannst mér liðið gott í fyrri hálfleik, við vorum ekki síðri og jafnvel sterkari. Í seinni hálfleik vorum við flatir og það vantaði einn eða tvo leiðtoga til að stýra þessu.“

Stjarnan eru með marga menn í meiðslum og virðist vera eitthvað í liðið endurheimti þá alla.

„Tandri [Már Konráðsson] kemur ekkert fyrr en í janúar eða febrúar. Þetta lítur ekki vel út með Dag Gautason, það var brotið illa á honum í síðasta leik þar sem hann fékk högg á hnéið. Hann verður frá í einhverjar vikur eða mánuði. Þórður Tandri [Ágústsson] er að koma sér í gang, það var eitthvað í kálfanum á honum. Adam [Thorstensen] fékk boltann í hausinn með unglingalandsliðinu og hefur verið frá í viku. Ég veit ekki hvað það tekur langan tíma.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert