Fimm marka tap gegn B-liði Noregs

Hildigunnur Einarsdóttir reynir skot af línunni í leiknum í dag.
Hildigunnur Einarsdóttir reynir skot af línunni í leiknum í dag. Ljósmynd/HSÍ

Thea Imani Sturludóttir átti stórleik fyrir íslenska kvennalandsliðið í handknattleik þegar liðið tapaði með fimm marka mun gegn B-liði Noregs í fjögurra liða æfingamóti í Cheb í Tékklandi í dag.

Leiknum lauk með 30:25-sigri norska liðsins en Thea gerði sér lítið fyrir og skoraði átta mörk í leiknum.

Norska liðið leiddi 14:8 í hálfleik en íslenska liðinu tókst að minnka forskot Noregs í þrjú mörk um miðjan síðari hálfleikinn. Norðmenn voru hins vegar sterkari á lokamínútunum og unnu þægilegan sigur.

Sandra Erlingsdóttir og Hildigunnur Einarsdóttir skoruðu fjögur mörk hvor fyrr Ísland og þær Andrea Jacobsen, Þórey Rósa Stefánsdóttir og Rakel Sara Elvarsdóttir tvö mörk hver. Harpa Valey Gylfadóttir, Sunna Jónsdóttir og Ragnheiður Júlíusdóttir skoruðu eitt mark hver.

Elín Jóna Þorsteinsdóttir varði níu skot í marki íslenska liðsins og Hafdís Renötudóttir fjögur skot.

Ísland mætir Sviss á morgun í öðrum leik sínum á æfingamótinu en lokaleikur liðsins verður gegn gestgjöfunum í Tékklandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert