Misstu af sæti í lokakeppni EM

Íslenska U18-ára landsliðinu tókst ekki að leggja Serba að velli.
Íslenska U18-ára landsliðinu tókst ekki að leggja Serba að velli. Ljósmynd/HSÍ

Íslenska U18-ára landsliðs kvenna í handknattleik tekur ekki þátt í lokakeppni EM 2023 eftir stórt tap gegn Serbíu í undankeppninni í Belgrad í Serbíu í dag.

Leiknum lauk með 31:20-sigri serbneska liðsins en Lilja Ágústsdóttir og Inga Dís Jóhannsdóttir voru markahæstar í íslenska liðinu með fjögur mörk hvor.

Serbar byrjuðu leikinn mun betur og leiddu með átta mörkum eftir tíu mínútna leik, 10:2. Staðan var 15:7, Serbum í vil, í hálfleik og íslenska liðinu tókst aldrei að ógna forskoti serbneska liðsins í síðari hálfleik.

Katrín Anna Ásmundsdóttir skoraði þrjú mörk fyrir íslenska liðið og þær Tinna Sigurrós Traustadóttir og Þóra Björg Stefánsdóttir tvö mörk hvor. Ingunn María Brynjarsdóttir varði níu skot í marki íslenska liðsins, þar af tvö vítaskot.

Ísland hefði með sigri getað tryggt sér sæti í lokakeppninni en liðið endar í öðru sæti riðilsins með 4 stig eftir sigra gegn Slóveníu og Slóvakíu. Serbar eru hins vegar á leið á EM eftir öruggan sigur gegn Íslandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert