Teitur Örn Einarsson var á meðal markahæstu leikmanna Flensburg þegar liðið vann öruggan sigur gegn Dinamo Búkarest í B-riðli Meistaradeildarinnar í handknattleik í Búkarest í kvöld.
Teitur skoraði fimm mörk í leiknum sem lauk með átta marka sigri Flensburg, 28:20.
Staðan var jöfn í hálfleik, 13:13, en Flensburg byrjaði seinni hálfleikinn af krafti, náði þægilegu forskoti, sem leikmönnum Dinamo Búkarest tókst ekki að vinna upp.
Flensuburg er með 7 stig í fimmta sæti B-riðils eftir átta leiki en tvö efstu liðin fara beint áfram í átta-liða úrslit keppninnar á meðan liðin í 3.-6. sæti fara í umspil um sæti í átta-liða úrslitunum.