Handknattleiksmaðurinn Alexander Petersson er búinn að skrá sig í sögubækurnar í þýsku 1. deildinni en hann lék á dögunum sinn 500. leik í henni.
Alexander varð þar með fyrsti Íslendingurinn til þess að ná því afreki í einni sterkustu, ef ekki þeirri sterkustu, deild heims.
Alexander, sem er 41 árs gamall en ennþá í fullu fjöri, hefur nú leikið 502 leiki í deildinni eftir að hafa leikið sinn fyrsta leik í henni árið 2004, þá 24 ára.
Hann er nú á mála hjá Íslendingaliði Melsungen en hefur einnig leikið með Flensburg, Rhein-Neckar Löwen, Füchse Berlín, Grosswallstadt og Düsseldorf í þýsku 1. deildinni.
Þýski handboltasérfræðingurinn Fabian Koch skýrir frá þessu á Twitter og birtir lista yfir þá fimmtán leikmenn sem hafa náð að spila 500 leiki. Á þeim lista eru þrettán Þjóðverjar og tveir erlendir leikmenn, Alexander sem er í fjórtánda sæti listans og sænski markvörðurinn Mattias Andersson sem lék 569 leiki á sínum tíma.
Leikjahæstur í sögu deildarinnar er markvörðurinn Carstein Lichtlein sem lék 686 leiki, markvörðurinn Jan Holpert lék 625 og Christian Schwarzer lék 600 leiki.