Haukar þurftu að sætta sig við 26:28-tap á útivelli gegn Foscani í fyrri leik liðanna í 32-liða úrslitum Evrópubikars karla í handbolta í dag. Liðin mætast aftur á Ásvöllum um næstu helgi.
Staðan í hálfleik var 16:14, rúmenska liðinu í vil, og skoruðu liðin jafn mörg mörk í seinni hálfleik. Var staðan 26:26 þegar skammt var eftir en rúmenska liðið skoraði tvö síðustu mörkin.
Haukar byrjuðu ágætlega og komust í 3:1 og 8:5. Heimamenn jöfnuðu í 13:13 og komust í 15:13 í kjölfarið og tókst Haukum ekki að jafna eftir það.
Darri Aronsson var markahæstur í Haukaliðinu með sjö mörk, Brynjólfur Snær Brynjólfsson gerði sex og þeir Ólafur Ægir Ólafsson og Jón Karl Einarsson fjögur hvor.
Haukar unnu Strovolou í tveimur leikjum á Kýpur með ellefu og tólf marka mun í síðustu umferð.