Grótta kjöldró Eyjamenn

Birgir Steinn Jónsson átti stórleik fyrir Gróttu í dag.
Birgir Steinn Jónsson átti stórleik fyrir Gróttu í dag. mbl.is/Óttar Geirsson

Grótta vann gífurlega öruggan 36:26 sigur gegn ÍBV í úrvalsdeild karla í handknattleik, Olísdeildinni, á Seltjarnarnesi í dag.

Tónninn var strax gefinn í upphafi leiks þegar Grótta komst í 4:0. Eftir níu mínútna leik var staðan orðin 8:1 og gestirnir úr Vestmanneyjum vægast sagt heillum horfnir.

Gróttumenn komust mest tíu mörkum yfir í fyrri hálfleik þegar þeir leiddu, 20:10, undir lok hans.

Þannig stóðu leikar í hálfleik og héldu Gróttumenn góðum dampi í síðari hálfleik.

Eyjamenn náðu mest að minnka muninn niður í sex mörk, 29:23, þegar um tíu mínútur voru eftir af leiknum.

Grótta kláraði hins vegar leikinn á afar góðri siglingu og vann að lokum auðveldan tíu marka sigur.

Birgir Steinn Jónsson átti stórleik í liði Gróttu og skoraði 11 mörk ásamt því að gefa fimm stoðsendingar fyrir liðsfélaga sína.

Ólafur Brim Stefánsson skoraði sjö mörk fyrir Gróttu.

Einar Baldvin Baldvinsson lék frábærlega í marki Seltirninga og varði 17 af þeim 42 skotum sem hann fékk á sig, sem er 40,5 prósent markvarsla.

Markahæstur Eyjamanna var Kári Kristján Kristjánsson með átta mörk.

Grótta fer með sigrinum upp í 9. sæti deildarinnar þar sem liðið er komið með 7 stig.

ÍBV er áfram í 3. sæti, að minnsta kosti um sinn, með 14 stig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert