Jónatan Þór Magnússon, þjálfari KA í Olís-deild karla í handbolta, brosti í kampinn eftir 31:29 sigur KA á Gróttu í kvöld. KA lyfti sér upp um eitt sæti í deildinni með sigrinum.
Jónatan, þetta var flottur sigur hjá ykkur í dag í höruleik.
„Já. Umfram allt þá var þetta sigur og hann var mjög flottur. Mér fannst það, þetta var flottur sigur. Það gekk á ýmsu. Það voru áhlaup. Við hefðum mögulega átt að kála þessum leik í fyrri hálfleik, gerðum það ekki. Svo kom þarna smá brekka og við hefðum getað bognað en gerðum það ekki. Fyrir vikið er þetta ekkert nema góður sigur, leikurinn spilaðist þannig og var að sveiflast aðeins.“
Þú minnist á fyrri hálfleikinn. Þið eruð með stöðuna 11:4 og svo 15:10 rétt fyrir hálfleik en Grótta skoraði tvö mörk á síðustu mínútunni og fer með byr í seglin inn í hálfleikshléið í stöðunni 15:12. Það gat því allt gerst í seinni hálfleiknum. Grótta minnkaði muninn svo tvívegis í eitt mark þegar leið að lokum. Þú hlýtur því að vera ánægður með að hafa klárað leikinn.
„Ég er gríðarlega ánægður. Grótta hefur sýnt það að þeir eru góðir og koma á fljúgandi siglingu inn í þennan leik. Þess vegna var ég mjög ánægður með byrjun okkar í leiknum. Við bara svöruðum þeim með hörku leik og ég held að þeir hafi fengið dálítið sjokk sem þeir voru lengi að jafna sig á. Þetta þýddi það að lið Gróttu þurfti að eyða mikilli orku í að koma til baka. Leikur þeirra kom engan vegin á óvart og þeir spiluðu sjö á sex gríðarlega vel. Við hættum þá líka að keyra í bakið á þeim og tempóið hjá okkur datt dálítið niður. Þegar þeir voru að saxa á okkur þá fórum við líka í sjö á sex og afgreiddum það vel. Það hjó á hnútinn hjá okkur og við kláruðum þetta. Það var bara mjög ánægjulegt að sjá að flest það sem við lögðum upp með gekk nokkurn vegin upp.“
Við getum ekki skilið við þennan leik öðruvísi en að minnast á frammistöðu Óðins Þórs Ríkharðssonar. Hann skoraði fjórtán mörk í leiknum. Er það ekki gaman fyrir þig sem þjálfara að sjá svona frammistöðu?
„jú a sjálfsögðu. Hann er frábær leikmaður en í augnablikinu man ég bara eftir klikkunum hans. Ég held að hann sé með tuttugu færi, sem segir manni það að félagar hans treysta á hann og það gekk vel að skapa honum færi. Honum leiðist það ekkert að skora en hann bjó ekki til öll færin sín sjálfur og það var t.d. mjög gott í okkar leik hvað var hægt að opna fyrir Óðinn. Taktíkin gekk því mun betur núna en í síðustu leikjum. Eins og ég sagði áðan í öðru viðtali þá er ég eiginlega bara ánægður. Það er ekkert áhyggjuefni hjá mér akkúrat núna. Þessi sigur gefur okkur búst inn í næstu tvo leiki.“
Það er einmitt heimaleikur næsta föstudag gegn HK.
„Það verður gaman að fá þá í heimsókn. Ég vona nú að fólk fjölmenni á leikinn þótt það sé að styttast í jólin. Við þurfum að fá svona stuðning aftur, eins og í þessum leik. Stuðningurinn í heimaleikjunum sem búnir eru hefur verið frábær. Það er gaman að spila fyrir þessa áhorfendur og ég hvet þá og vona að við fáum aftur svona mætingu. Ég vona bara að fólk skelli sér í próf og myndi sömu frábæru stemningu og var í dag og þá verður þetta mun skemmtilegra“ sagði Jónatan að lokum.