Svíar skoruðu 55 mörk

Frakkinn Kalidiatou Niakate sækir að vörn Pólverja í leik liðanna …
Frakkinn Kalidiatou Niakate sækir að vörn Pólverja í leik liðanna í kvöld. AFP

Svíþjóð vann risasigur á Kasakstan, með 35 marka mun, þegar liðin mættust í milliriðlakeppni heimsmeistaramóts kvenna í handknattleik á Spáni í kvöld.

Sænsku konurnar unnu leikinn 55:20 eftir að staðan var 21:10 í hálfleik en þær skoruðu meira en mark á mínútu í seinni hálfleiknum, eða 34 mörk.

Nathalie Hagman var langatkvæðamest sænsku leikmannanna og skoraði 19 mörk í leiknum.

Eftir fyrstu umferð milliriðils tvö er Noregur með 6 stig, Svíþjóð 5, Holland 5, Rúmenía 2, Kasakstan og Púertó Ríkó ekkert.

Frakkar unnu auðveldan sigur á Pólverjum í milliriðli eitt, 26:16, eftir að staðan var 14:9 í hálfleik. Frakkland er með 6 stig, Rússland 5, Serbía 4, Slóvenía 3, Svartfjallaland og Pólland eru án stiga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert