Eyjamaðurinn með tíu fyrir toppliðið

Hákon Daði Styrmisson fór á kostum fyrir Gummersbach.
Hákon Daði Styrmisson fór á kostum fyrir Gummersbach. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Gummersbach er áfram í toppsæti þýsku 2. deildarinnar í handbolta eftir nauman 30:29-heimasigur á Elbflorenz í kvöld.

Eyjamaðurinn Hákon Daði Styrmisson fór á kostum fyrir Gummersbach og skoraði tíu mörk. Sveitungi hans Elliði Snær Viðarsson bætti við tveimur. Guðjón Valur Sigurðsson þjálfar Gummersbach.

Liðið er í toppsæti deildarinnar með 26 stig, þremur meira en Hagen. Hüttenberg á tvo leiki til góða og getur minnkað forskot Gummersbach niður í eitt stig.

Öllu verr gengur hjá Aue en liðið tapaði sínum sjötta leik í röð í deildinni í kvöld. Aue heimsótti þá Empor Rostock og mátti þola eins marks tap, 34:35. Arnar Birkir Hálfdánarson skoraði tvö mörk fyrir Aue og Sveinbjörn Pétursson varði þrjú skot.

Aue er í 18. sæti með átta stig, en liðið hefur aðeins unnið þrjá leiki af sextán á leiktíðinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert