FH og Selfoss skildu jöfn, 28:28, í miklum spennuleik í Olísdeild karla í handbolta í Kaplakrika í kvöld. Egill Magnússon jafnaði fyrir FH á síðustu sekúndunni.
Selfoss var skrefinu á undan stærstan hluta fyrri hálfleiks og var staðan 8:5 þegar hann var tæplega hálfnaður. FH-ingar tóku við sér undir lok hálfleiksins og var jafnt í hálfleik, 17:17.
Selfyssingar virtust ætla að sigla góðum sigri í hús er Tryggvi Þórisson kom liðinu í 28:25, fjórum mínútum fyrir leikslok. Þá tóku FH-ingar við sér og skoruðu þrjú síðustu mörkin og tryggðu sér sætt stig.
Ásbjörn Friðriksson skoraði níu mörk fyrir FH og Einar Örn Sindrason átta. Ragnar Jóhannsson gerði átta fyrir Selfoss og Hergeir Grímsson fimm. FH er í toppsæti deildarinnar með 18 stig, eins og grannarnir í Haukum. Selfoss er í sjötta sæti með 12 stig.
Í Vestmannaeyjum vann ÍBV torsóttan 27:23-sigur á nýliðum Víkings. Staðan var 21:21 þegar skammt var eftir en Eyjamenn voru sterkari á lokakaflanum. Gauti Gunnarsson og Kári Kristján Kristjánsson gerðu sex mörk hvor fyrir ÍBV á meðan Jóhannes Berg Andrason fór á kostum fyrir Víking og skoraði 13 mörk.
ÍBV er í þriðja sæti deildarinnar með 17 stig en Víkingur er í ellefta og næstneðsta sæti með tvö stig.