Lygileg endurkoma Stjörnunnar

Björgvin Þór Hólmgeirsson átti stórleik fyrir Stjörnuna.
Björgvin Þór Hólmgeirsson átti stórleik fyrir Stjörnuna. mbl.is/Óttar Geirsson

Stjarnan og Afturelding gerðu ótrúlegt 26:26-jafntefli í Olísdeild karla í handbolta á heimavelli Stjörnumanna í kvöld. Afturelding var með tíu marka forskot, 22:12, þegar 20 mínútur voru til leiksloka.

Jafnræði var með liðunum framan af og var staðan 6:6 þegar fyrri hálfleikur var hálfnaður. Þá tóku gestirnir úr Aftureldingu heldur betur við sér og var staðan í hálfleik 17:9.

Afturelding byrjaði betur í seinni hálfleik og náði tíu marka forskoti þegar Blær Hinriksson kom liðinu í 22:12. Þá fór allt í baklás hjá Mosfellingum og Stjarnan skoraði 14 mörk gegn aðeins fjórum á lokakaflanum og tryggði sér ótrúlegt stig.

Leó Snær Pétursson skoraði tíu mörk fyrir Stjörnuna og Björgvin Þór Hólmgeirsson gerði níu. Árni Bragi Eyjólfsson og Blær Hinriksson skoruðu sjö hvor fyrir Aftureldingu. Stjarnan er í fjórða sæti með 16 stig og Afturelding í sjöunda með 13 stig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert