Valur vann nauman 25:24-sigur á Gróttu á heimavelli í Olísdeild karla í handbolta í kvöld. Valur er í fjórða sæti deildarinnar með 16 stig, tveimur á eftir toppliðum Hauka og FH og með leik til góða. Grótta er í 10. sæti með sjö stig.
Grótta fór betur af stað og komst í 6:3 snemma leiks. Valsmenn jöfnuðu í 6:6 og voru með tveggja marka forskot í hálfleik, 15:13.
Gróttumenn jöfnuðu snemma í 17:17 í seinni hálfleik en í kjölfarið komst Valur í 21:18 og tókst Gróttu ekki að jafna eftir það, þrátt fyrir að ná að minnka muninn í eitt mark.
Arnór Snær Óskarsson skoraði sjö mörk fyrir Val og Tumi Steinn Rúnarsson gerði sex. Birgir Steinn Jónsson skoraði sjö fyrir Gróttu og þeir Ívar Logi Styrmisson og Igor Mrsulja fjögur hvor.