Þýskaland og Brasilía urðu í dag fyrstu þjóðirnar til að tryggja sér sæti í átta liða úrslitum HM kvenna í handbolta á Spáni. Bæði lið hafa unnið alla fimm leiki sína á mótinu til þessa.
Þýskaland var allan tímann sterkari aðilinn gegn Suður-Kóreu og vann að lokum 37:28 í 3. riðli. Staðan í hálfleik var 19:16 og þær þýsku stungu af í seinni hálfleik. Emily Bölk og Alina Grijseels voru markahæstar í þýska liðinu með átta mörk hvor. Lee Mi-Gyeong gerði sex fyrir Suður-Kóreu.
Brasilía þurfti að hafa fyrir 24:19-sigri á Argentínu í 4. riðli. Staðan í hálfleik var 13:10 fyrir Brasilíu en aðeins tveimur mörkum munaði þegar skammt var eftir, 21:19. Brasilía skoraði þrjú síðustu mörkin og tryggði sér sigurinn.
Patrícia Matieli fór fyrir brasilíska liðinu og skoraði níu mörk. Jessica Quintino kom þar á eftir með fimm. Elke Karsten var markahæst í argentínska liðinu með fimm mörk.