Áfram á Hlíðarenda

Auður Ester Gestsdóttir hefur spilað mjög vel fyrir Val á …
Auður Ester Gestsdóttir hefur spilað mjög vel fyrir Val á tímabilinu. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Handknattleikskonan Auður Ester Gestsdóttir hefur framlengt samning sinn við Val til næstu þriggja ára. Þetta kom fram í fréttatilkynningu félagsins á Facebook í dag.

Samningurinn gildir út keppnistímabilið 2025 en Auður er uppalin hjá Val og hefur leikið með félaginu allan sinn feril.

Hægri hornamaðurinn hefur leikið stórt hlutverk með Valskonum það sem af er tímabili en hún hefur skorað 32 mörk í níu leikjum á tímabilinu.

Valur er í öðru sæti deildarinnar með 16 stig, stigi minna en topplið Fram, en Valskonur eiga leik til góða á Framara.

Auður hefur bætt sig jafnt og þétt sl. ár og er orðin einn af lykilleikmönnum Vals,“ sagði Ágúst Jóhannsson, þjálfari Vals, í tilefni undirskriftarinnar.

„Hún hefur leikið feykilega vel það sem af er tímabili og heldur bara vonandi áfram á sömu braut. Þetta eru því góð tíðindi fyrir félagið,“ bætti Ágúst við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert