Eyjamenn slógu Framara úr leik

Sigtryggur Daði Rúnarsson sækir að Frömurum í Safamýri í dag.
Sigtryggur Daði Rúnarsson sækir að Frömurum í Safamýri í dag. mbl.is/Árni Sæberg

Björn Viðar Björnsson fór á kostum í marki ÍBV þegar liðið vann fjögurra marka sigur gegn Fram í 32-liða úrslitum bikarkeppni karla í handknattleik, Coca-Cola-bikarnum, í Framhúsi í Safamýri í kvöld.

Leiknum lauk með 29:25-sigri ÍBV en Björn Viðar varði sautján skot í markinu og var með tæplega 44% markvörslu.

Eyjamenn byrjuðu leikinn betur og náðu mest fimm marka forskoti í fyrri hálfleik en Frömurum tókst að laga stöðuna og ÍBV leiddi 12:10 í hálfleik. ÍBV var með yfirhöndina allan síðari hálfleikinn og Frömurum tókst ekki að snúa leiknum sér í vil.

Rúnar Kárason var markahæstur Eyjamanna með átta mörk og Ásgeir Snær Vignisson skoraði fjögur. 

Vilhelm Poulsen skoraði átta mörk í liði Framara og Stefán Darri Þórsson skoraði fimm.

ÍBV er því komið áfram í sextán liða úrslit keppninnar en Framarar eru úr leik.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert