Henny Reistad var markahæst í liði Noregs þegar liðið vann dramatískan þriggja marka sigur gegn heimsmeisturum Hollands í lokaleik liðanna í milliriðli 2 á heimsmeistaramóti kvenna í handknattleik á Spáni í kvöld.
Leiknum lauk með 37:34-sigri norska liðsins en Reisted skoraði níu mörk fyrir Noreg.
Hollenska liðið byrjaði leikinn mun betur og náði sex marka forskoti eftir tíu mínútna leik, 11:5. Þá hrökk norska liðið í gang og þeim tókst að jafna metin í 17:17 og þannig var staðan í hálfleik.
Liðin skiptust á að skora í upphafi síðari hálfleiks en þegar tuttugu mínútur voru eftir af leiknum náðu Norðmenn fjögurra marka forskoti, 24:20. Hollendingum tókst að minnka muninn í 27:28 og liðin skiptust á að skora eftir það.
Bæði lið fóru illa með nokkur dauðafæri á lokamínútunum en Hollendingum tókst aldrei að jafna metin það sem eftir lifði leiks og Norðmenn fögnuðu dýrmætum sigri.
Nora Mörk skoraði átta mörk fyrir Norðmenn og Camilla Herrem skoraði sjö mörk. Silje Solberg varði þrettán skot í markinu.
Noregur undir stjórn Þóris Hergeirssonar endaði í efsta sæti milliriðils 2 með 8 stig og er því kominn áfram í átta-liða úrslitin þar sem liðið mætir Rússland en Rússar töpuðu 28:33-gegn Frakklandi í milliriðli 1 í kvöld. Frakkar, sem fögnuðu sigri í milliriðli 1, mæta Svíþjóð sem endaði í öðru sæti milliriðils 2 en leikirnir fara fram 15. desember.
Þá mætast Danmörk og Brasilía annars vegar og Spánn og Þýskaland í hinum leikjum átta-liða úrslitanna en þeir leikir fara fram á morgun.