Danir í undanúrslit

Sandra Toft (t.v.) og Adriana Cardoso áttu báðar stórleik í …
Sandra Toft (t.v.) og Adriana Cardoso áttu báðar stórleik í dag. AFP

Danmörk er búið að tryggja sér sæti í undanúrslitum HM í handknattleik kvenna á Spáni eftir að hafa borið sigurorð af Brasilíu í fyrsta leik átta liða úrslita mótsins í dag.

Leikurinn var í járnum til að byrja með og leiddu Danir með einu marki, 14:13, í leikhléi.

Áfram var leikurinn jafn og spennandi í upphafi síðari hálfleiks.

Eftir að Brasilía minnkaði muninn í 21:19 skoraði Danmörk næstu tvö mörk.

Staðan orðin 23:19 og átti Brasilía í erfiðleikum með að ná í skottið á Danmörku það sem eftir lifði leiks.

Að lokum sigldu Danir góðum fimm marka sigri, 30:25, í höfn og tryggðu sér sætið í undanúrslitunum.

Sandra Toft átti stórleik í marki Dana og varði 17 skot, sem er 42 prósent markvarsla.

Markahæst Dana var Lærke Nolsöe með sex mörk en Adriana Cardoso hjá Brasilíu var langmarkahæst í leiknum með tíu mörk.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert