Spánn er búið að tryggja sér sæti í undanúrslitum HM í handknattleik kvenna sem fer fram um þessar mundir þar í landi eftir góðan 26:21 sigur á Þýskalandi í fjórðungsúrslitum mótsins í kvöld.
Óhætt er að segja að alls ekki hafi stefnt í þetta þægilegan sigur heimakvenna þar sem Þýskaland byrjaði leikinn stórkostlega og komst í 0:4.
Þjóðverjar héldu fjögurra marka forystunni um skeið en eftir að liðið komst í 3:7 skoraði Spánn næstu þrjú mörk og komu sér þannig umtalsvert betur inn í leikinn enda staðan orðin 6:7.
Þýskaland skoraði næsta mark en Spánn brást við með fjórum mörkum og náði forystunni í fyrsta sinn í leiknum.
Staðan orðin 10:8 og tókst Spánverjum að bæta enn frekar í og komast fjórum mörkum yfir, 13:9. Hálfleikstölur voru 14:10.
Þýskaland gafst ekki upp en Spánn hleypti liðinu þó ekki nær en tveimur mörkum frá sér í síðari hálfleik.
Mest náðu Spánverjar sex marka forystu í síðari hálfleiknum, 23:17, og unnu að lokum með fimm mörkum.
Carmen Campos var markahæst í liði Spánar með sjö mörk og Julia Maidhof var markahæst í liði Þýskalands með sex mörk.