Stjarnan er búið að tryggja sér sæti í 16-liða úrslitum Coca Cola-bikars karla í handknattleik eftir ótrúlegan leik gegn Aftureldingu í 32-liða úrslitunum í Garðabænum í kvöld.
Afturelding leiddi með einu marki, 13:14, eftir sveiflukenndan fyrri hálfleik.
Sveiflurnar voru áfram til staðar í síðari hálfleik en virtust heimamenn vera að sigla sterkum sigri í höfn þegar staðan var 29:26 er skammt lifði leiks.
Gestirnir úr Mosfellsbænum gáfust hins vegar ekki upp og jafnaði Þorsteinn Leó Gunnarsson metin í 29:29 á ögurstundu og náði þannig að knýja fram framlengingu.
Í framlenginunni byrjaði Afturelding betur og komst í 29:31 en Stjarnan náði að snúa taflinu við og komast í 32:31.
Blær Hinriksson jafnaði hins vegar metin úr vítakasti og í kjölfarið klúðruðu bæði lið tveimur sóknum og því þurfti að framlengja að nýju!
Í annarri framlengingu skiptust liðin á að skora eða allt þar til Hjálmtýr Alfreðsson kom Stjörnunni í 36:35.
Í lokasókn Aftureldingar átti Blær tvær skottilraunir en Arnór Freyr Stefánsson í marki Stjörnunnar varði bæði skotin og tryggði þannig Stjörnunni eins marks sigur í stórkostlegum handboltaleik.
Leó Snær Pétursson var markahæstur Stjörnumanna með átta mörk og á eftir honum komu Hjálmtýr og Björvin Þór Hólmgeirsson með sex mörk hvor.
Blær var hins vegar markahæstur í leiknum með tíu mörk fyrir Aftureldingu. Árni Bragi Eyjólfsson kom næstur með átta mörk og Þrándur Gíslason Roth skoraði sex mörk.
Arnór Freyr varði 19 skot í marki Stjörnunnar og var með 39 prósent markvörslu.
Andri Sigmarsson Scheving í marki Aftureldingar varði 17 skot og var með 40 prósent markvörslu.