Frakkar síðastir í undanúrslit

Coralie Lassource fagnar einu marka sinna fyrir Frakka í kvöld.
Coralie Lassource fagnar einu marka sinna fyrir Frakka í kvöld. AFP

Frakkar urðu fjórða og síðasta liðið til að tryggja sér sæti í undanúrslitum heimsmeistaramóts kvenna í handknattleik með því að sigra Svía í síðasta leik átta liða úrslitanna í Granollers á Spáni í kvöld, 31:26.

Jafnræði var lengi vel með liðunum og staðan var 15:15 í hálfleik en Frakkar sigu framúr í seinni hálfleiknum og voru komnir með pálmann í hendurnar mínútu fyrir leikslok þegar þeir náðu fimm marka forystu.

Coralie Lassource, Laura Flippes og Alicia Toublanc voru markahæstar hjá Frökkum með 4 mörk hver en Nathalie Hagman skoraði 9 mörk fyrir Svía og Linn Blohm 6.

Frakkar mæta Dönum í undanúrslitum á föstudaginn en Noregur mætir Spáni í hinum leiknum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert