Elliði Snær Viðarsson hefur framlengt samning sinn við þýska handknattleiksfélagið Gummersbach um eitt ár og er nú samningsbundinn liðinu fram til sumarsins 2023.
Í samningi Elliða Snæs, sem átti að renna út næstkomandi sumar, var klásúla sem kvað á um að hægt væri að framlengja hann um eitt ár til viðbótar.
Forsvarsmenn Gummersbach hafa ákveðið að virkja þessa klásúlu og það er Guðjón Valur Sigurðsson, aðalþjálfari liðsins, ánægður með.
„Ég er ánægður með þetta því Elliði var fyrsti leikmaðurinn sem ég fékk til Gummersbach. Hann hefur þróast vel hjá okkur og er búinn að öðlast reynslu sem landsliðsmaður Íslands á þessum tíma.
Hann er enn ungur og er leikmaður sem við vonumst til að muni halda kyrru fyrir hjá Gummersbach um ókomna tíð,“ sagði Guðjón Valur í samtali við heimasíðu félagsins.
Elliði Snær, sem er 23 ára gamall, gekk til liðs við Gummersbach frá uppeldisfélaginu ÍBV í ágúst árið 2020 og er því á sínu öðru tímabili með liðinu.
Á mála hjá Gummersbach eru einnig þeir Hákon Daði Styrmisson og Óðinn Þór Ríkharðsson.