Orðið dálítið þreytt hjá okkur

Guðmundur Hólmar Helgason skoraði 9 mörk í kvöld.
Guðmundur Hólmar Helgason skoraði 9 mörk í kvöld. Mbl.is/Íris Jóhannsdóttir

„Þetta byrjaði rosalega illa hjá okkur. Það voru kannski seinni tuttugu mínúturnar í fyrri hálfleik þar sem við áttum mjög góðan kafla en svo var þetta ekki fallegur handbolti í seinni hálfleik,“ sagði Guðmundur Hólmar Helgason, markahæsti leikmaður Selfoss, í 28:27 sigri á Fram í Olísdeild karla í handbolta í kvöld.

„Það var mikil barátta og mikill hiti í þessum leik, örugglega fínar varnir en við vorum dálítið æstir og fórum fram úr sjálfum okkur. Það var mikið af mistökum hjá báðum liðum en það var líka mikið í húfi og þetta voru mikilvæg tvö stig fyrir okkur,“ bætti Guðmundur við.

Eftir afleita byrjun í deildinni hafa Selfyssingar verið á ágætu skriði síðustu vikur og fara með 15 stig í 6. sæti inn í jólafríið. Meiðslalisti Selfyssinga hefur verið lengri en gjafalisti jólasveinsins og Guðmundur segir að þeir muni hafa gott af jólafríinu.

„Það hafa öll lið lent í skakkaföllum en þetta er orðið dálítið þreytt hjá okkur. Við erum búnir að missa menn jafnt og þétt út. Ég var lítið búinn að æfa fyrir þennan leik eftir að hafa fengið högg á augað og þú sást nú hvað ég var þreyttur í seinni hálfleiknum. Ég fór þetta á þrjóskunni. Magnús Öder var í hóp í fyrsta skipti í kvöld eftir sín meiðsli og það styttist í Atla Ævar. Vonandi náum við góðri törn með stærstan hluta hópsins í janúar. Við höfum sýnt það í síðustu leikjum að við erum með lið sem getur gert hluti og við þurfum að berja það inn í hausinn á okkur áður en við mætum aftur í febrúar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert