Selfoss sigraði í spennutrylli

Guðmundur Hólmar Helgason skoraði níu mörk fyrir Selfoss gegn Fram …
Guðmundur Hólmar Helgason skoraði níu mörk fyrir Selfoss gegn Fram í kvöld. Mbl.is/Íris Jóhannsdóttir

Selfoss vann gríðarlega mikilvægan sigur á Fram í Olísdeild karla í handbolta á Selfossi í kvöld, 28:27.

Framarar byrjuðu af krafti og skoruðu fyrstu fjögur mörkin en þá tóku Selfyssingar við sér og náðu góðri forystu fyrir leikhlé, 15:11. Guðmundur Hólmar Helgason fór mikinn í liði Selfoss og Rasimas varði vel fyrir aftan góða Selfossvörnina.

Selfoss náði fimm marka forskoti í seinni hálfleik og voru í rauninni með pálmann í höndunum. Framarar voru hins vegar ekki á því að láta valta yfir sig. Þeir spiluðu hörkuvörn og fyrir aftan hana kom þriðji markvörður liðsins, hinn 42 ára gamli Magnús Gunnar Erlendsson, inn og lokaði markinu algjörlega. Hann varði tíu skot í seinni hálfleik, þar af tvö víti, en Framarar höfðu ekki fengið mikla markvörslu fram að þessu.

Gæði handboltans voru ekki mikil í seinni hálfleik, hörkuslagur á báðum endum vallarins og mikið um tapaða bolta. Fram jafnaði 21:21 þegar tíu mínútur voru eftir og lokamínúturnar voru þrungnar spennu. Hver einasta sókn taldi á þessum kafla og jafnt var á öllum tölum þangað til Selfoss skoraði 28. markið, en þá var reyndar nóg eftir af leiknum.

Einar Jónsson, þjálfari Fram, orðaði það þannig að Selfyssingar hefðu verið einu marki betri í kvöld, og það er rétt hjá honum. Þeir vínrauðu voru ótrúlega seigir á lokakaflanum þar sem Guðmundur Hólmar var sterkur og Tryggvi Þórisson átti frábært framlag.

Sigurinn gerir mikið fyrir Selfyssinga sem fara lúnir inn í jólafríið með marga menn á sjúkralistanum. Þeir eru nú komnir með 15 stig og eru í 6. sæti en Fram er í 9. sæti með 10 stig.

Guðmundur Hólmar var markahæstur Selfyssinga með 9/2 mörk og Rasimas varði 13 skot. Hjá Fram var Þorsteinn Gauti Hjálmarsson frábær, þegar hann fann loksins markið. Hann skoraði 7 mörk, Breki Dagsson skoraði 6/1 og Magnús Gunnar varði 10/2 skot.

Selfoss 28:27 Fram opna loka
60. mín. Selfoss tapar boltanum Ruðningur á Ragnar!
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert