„Við gerðum vel í dag, byrjuðum mjög vel en svo kom Selfoss sér inn í leikinn og tók frumkvæðið. Þeir voru þéttir í vörninni og við í basli að koma okkur í góðar stöður. Við leystum það í seinni hálfleiknum og gerðum mjög vel sóknarlega þar,“ sagði Einar Jónsson, þjálfari Fram, sem tapaði naumlega fyrir Selfyssingum í Olísdeild karla í handbolta í kvöld, 28:27 á Selfossi.
„Mér fannst við líka líta vel út varnarlega í kvöld en þrjú af síðustu fimm mörkum Selfoss eru að koma úr fráköstum og vítaköstum og einhverju hnoði... mér fannst við bara góðir í kvöld, þetta er búin að vera brekka undanfarið og við ætlum að mæta af krafti og ná okkur í tvö stig fyrir jólafríið. Ég get ekki sagt annað en að við höfum sýnt karakter og kraft en það var margt sem var erfitt hjá okkur í kvöld. Við erum á útivelli og það er erfitt að spila á móti frábæru Selfossliði. Þeir voru betri en við í dag - einu marki betri,“ bætti Einar við.
Framarar fengu frábært framlag í kvöld frá þriðja markverði sínum, Magnúsi Gunnari Erlendssyni, sem varði 10/2 skot í seinni hálfleiknum og hélt Fram inni í leiknum.
„Þetta er þriðji leikurinn hans og hann er búinn að standa sig frábærlega. Hann er auðvitað reynslumikill markmaður en skrokkurinn er kannski ekki alveg í lagi. Hann nær 15-20 mínútum í kvöld og skilaði frábæru starfi hér á þeim tíma. Hann var stórkostlegur,“ sagði Einar að lokum