Handknattleiksmaðurinn Oddur Gretarsson hefur ekki getað spilað neitt með þýska félaginu Balingen á tímabilinu vegna meiðsla. Hann stefnir ótrauður á að vera kominn á fullt í byrjun febrúar á næsta ári.
Í sumar gekkst hann undir aðgerð á hné vegna brjóskeyðingar í því og hefur endurhæfingin tekið tímann sinn þó allt sé á réttri leið.
„Í raun er allt samkvæmt áætlun. Stefnan er sett á að verða klár þegar byrjað verður aftur í febrúar,“ sagði Oddur í samtali við Handbolta.is í dag.
Hann vísar þar til þess að keppni í þýsku 1. deildinni hefjist að nýju í byrjun febrúar eftir að EM í Frakklandi, sem hefst þann 13. janúar næstkomandi, hefur runnið sitt skeið.