Erlingur Richardsson, þjálfari ÍBV, var ekkert of ánægður eftir tap hans manna gegn Stjörnunni í kvöld en liðið steinlá á heimavelli 20:31 í toppbaráttunni í Olísdeild karla.
„Þetta tapaðist greinilega í seinni hálfleiknum og fellur eins og spilaborg,“ sagði Erlingur um leik sinna manna í kvöld en liðið leiddi allan fyrri hálfleikinn áður en gestirnir tóku forystuna á síðustu sekúndunum.
„Þeir náðu að stjórna tempóinu á leiknum og réðu ríkjum á vellinum í dag.“
Björn Viðar Björnsson varði ágætlega í marki heimamanna en Brynjar Darri Baldursson var frábær í marki gestanna og varði 20 skot, átta fleiri en kollegi sinn í marki ÍBV.
„Hann varði vel og við vorum kannski líka í fyrri hálfleik of fljótir á okkur sóknarlega, en vörnin var fín þá. Undir lokin var mikil spenna í leiknum og mér fannst dómararnir ekki ráða við það spennustig og kannski ekki við heldur. Stjarnan réði betur við það og hélt út, við gerðum það ekki og dómararnir ekki heldur.“
Erlingur segist vera ánægður með uppskeruna hingað til en liðið er með 17 stig í 4. sæti deildarinnar en líklegt verður að teljast að Valsmenn sem eiga tvo leiki inni sendi ÍBV niður í 5. sætið. ÍBV var með góða stöðu í deildinni en hefur hikstað í síðustu umferðum.
„Þó að við höfum byrjað ágætlega þá voru kaflaskil í leikjunum okkar, við áttum ekkert skilið úr Gróttuleiknum, þeir voru miklu betri en við þar. HK var jafntefli og við töpum fyrir Val eftir frábæra ákvörðun dómaranna að senda Rúnar (Kárason) í bann, ég held að hann sé sá eini sem hefur farið í bann eftir högg í andlit í ár. Tapið á móti Haukum er grátlegast finnst mér, við vorum þar með góð tök á þeim leik. Við vorum með sigur innan seilingar sem við náðum ekki að klára, það er tapið sem situr mest í mér.“
„Við erum komnir áfram í bikarnum sem er frábært, við eigum verk að vinna en erum með fullt af kjúklingum í þessu liði. Við erum að reyna að byggja upp yngri leikmenn eins og sást í dag, við vorum með tvo unga leikmenn á 7 metra línunni í dag til að byggja þá upp í þeirri stöðu. Stundum vill maður vinna allt en við verðum að halda áfram að byggja upp, þetta eru svona tvö markmið í einu sem er oft erfitt að sameina. Við erum með blandaðan hóp af eldri og yngri sem tekur kannski smá tíma að pússla saman.“
„Heilt yfir er of mikill munur á milli hjá okkur inni í leikjum og á milli leikja,“ segir Erlingur en ÍBV hefur spilað glimrandi leiki á leiktíðinni en einnig dottið niður á mjög lágt plan.
Úrslitin ráðast ekki í desember en Erlingur horfir spenntur á næsta ár þar sem ÍBV verður eflaust að keppa á öllum vígstöðum.
„Það er verk að vinna og við erum með 17 stig núna og enduðum með 22 stig í fyrra, við erum á ágætis róli ef við skoðum stigatöfluna en svo vill maður alltaf betri frammistöðu og skemmtilegri niðurstöður.“