Ásbjörn Friðriksson átti frábæran leik fyrir FH þegar liðið vann þriggja marka sigur gegn Gróttu í úrvalsdeild karla í handknattleik, Olísdeildinni, í Hertz-höllinni á Seltjarnarnesi í þrettándu umferð deildarinnar í kvöld.
Ásbjörn skoraði átta mörk í leiknum sem lauk með 25:21-sigri Hafnfirðinga.
Grótta var sterkari aðilinn í fyrri hálfleik og leiddi með tveimur mörkum í hálfleik, 14:12. Jafnræði var með liðunum í síðari hálfleik, allt þangað til að fimm mínútur voru til leiksloka, þegar FH náði forystunni, 21:20, og Gróttu tókst ekki að koma til baka eftir það.
Phil Döhler átti mjög góðan leik í marki FH, varði 14 skot og var með 41% markvörslu, og þá skoraði Leonharð Þorgeir Harðarson sex mörk.
Birgir Steinn Jónsson var markahæstur í liði Gróttu með fimm mörk og Einar Baldvin Baldvinsson átti stórleik í markinu og varði 16 skot.
FH er í efsta sæti deildarinnar með 20 stig en Grótta er í tíunda sætinu með 7 stig.