Ómar og Rut handknattleiksfólk ársins

Rut Jónsdóttir fór fyrir liði KA/Þórs sem varð fjórfaldur meistari …
Rut Jónsdóttir fór fyrir liði KA/Þórs sem varð fjórfaldur meistari á keppnistímabilinu 2020-2021. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Ómar Ingi Magnússon leikmaður Magdeburg og Rut Jónsdóttir leikmaður KA/Þórs hafa verið útnefnd handknattleiksfólk ársins 2021.

Handknattleikssamband Íslands stendur fyrir valinu og í tilkynningu frá sambandi segir eftirfarandi um afreksfólk ársins:

Handknattleiksmaður ársins er Ómar Ingi Magnússon, 24 ára hægri skytta Madgeburg í Þýskalandi og A landsliðs karla.

Ómar Ingi vann bæði EHF European League og IHF Super Globe með Magdeburg á árinu en auk þess lenti liðið í 3. sæti í þýsku deildinni. Hann skoraði 274 mörk í deildakeppninni í Þýskalandi og endaði sem markakóngur þýsku deildarinnar. Þegar þetta er skrifað er Magdeburg í efsta sæti þýsku deildarinnar og hefur ekki tapað leik á yfirstandandi tímabili hvort sem er heimafyrir eða í Evrópukeppni.

Ómar kemur úr sterku yngriflokkastarfi á Selfossi og spilaði með meistaraflokki bæði á Selfossi og með Val áður hann hélt í atvinnumennsku til Danmerkur. Þar lék hann með bæði Århus håndbold og Aalborg håndbold áður en hann flutti sig um set og hóf að leika með Magdeburg sumarið 2020.

Ómar hefur leikið 56 landsleiki og skorað í þeim 150 mörk.

Það má segja að handknattleiksferill Ómars hafi sprungið út eftir að hann flutti sig um set til Þýskalands og hefur framganga hans vakið mikla athygli úti í heimi, Selfyssingurinn er því vel kominn að titlinum handknattleiksmaður ársins.

Ómar Ingi Magnússon hefur leikið frábærlega með Magdeburg síðasta árið.
Ómar Ingi Magnússon hefur leikið frábærlega með Magdeburg síðasta árið. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Handknattleikskona ársins 2021 er Rut Arnfjörð Jónsdóttir, 31 árs hægri skytta KA/Þórs og fyrirliði A landsliðs kvenna.

Rut var bæði Íslands- og deildarmeistari með KA/Þór á árinu en það voru fyrstu stóru titlar KA/Þórs frá stofnun félagsins. Hún skoraði 87 mörk í 14 leikjum fyrir félagið og var valin besti sóknarmaður og besti leikmaður Olísdeildar kvenna auk þess að fá Sigríðarbikarinn sem mikilvægasti leikmaður deildarinnar valinn af þjálfurum.

Rut lék með yngri flokkum og meistaraflokki HK áður en hún hélt í atvinnumennsku til Danmerkur aðeins 18 ára gömul. Í Danmörku lék hún með Team Tvis Holstebro, Randers HK, FCM Håndbold og Team Esbjerg áður en hún kom aftur heim sumarið 2020 og hefur síðan leikið með KA/Þór. Rut varð danskur meistari með Esbjerg 2019 og Evrópumeistari (EHF-cup) með Holstebro 2013.

Rut hefur leikið 104 landsleiki og skoraði í þeim 215 mörk, auk þess hefur hún verið fyrirliði liðsins undanfarin misseri.

Þetta er í annað sinn sem Rut hreppir nafnbótina handknattleikskona ársins en hún var síðast valin 2013. Hún hefur alla tíð verið verið mikil fyrirmynd bæði innan og utan vallar þar sem bæði yngri eldri iðkendur líta upp til hennar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert