Adam Haukur Baumruk og Brynjólfur Snær Brynjólfsson voru atkvæðamestir Hauka þegar liðið vann nauman sigur gegn Aftureldingu í úrvalsdeild karla í handknattleik, Olísdeildinni, á Ásvöllum í Hafnarfirði í þrettándu umferð deildarinnar í kvöld.
Leiknum lauk með 30:29-sigri Hauka en Adam Haukur og Brynjólfur Snær skoruðu sjö mörk hvor.
Liðin skiptust á að skora í fyrri hálfleik og var staðan 13:12, Haukum í vil, í hálfleik. Haukar náðu mest þriggja marka forskoti í síðari hálfleik en Afturelding fékk tækifæri til að jafna metin í lokasókn leiksins en skot Birkis Benediktssonar fór framhjá markinu.
Árni Bragi Eyjólfsson var markahæstur í liði Aftureldingar með sjö mörk og Þorsteinn Leó Gunnarsson skoraði sex mörk. Andri Sigmarsson Scheving varði 12 skot í markinu.
Haukar eru í efsta sæti deildarinnar með 20 stig eftir sigur kvöldsins en Afturelding er í sjöunda sætinu með 12 stig.
Þá átti Björgvin Páll Gústavsson stórleik í marki vals þegar liðið vann tveggja marka sigur gegn HK í Kórnum í Kópavogi en leiknum lauk með 31:29-sigri Vals.
HK-ingar byrjuðu leikinn betur en Valsmenn unnu sig vel inn í leikinn og var staðan 15:13 í hálfleik, Valsmönnum í vil.
Valsmenn voru sterkari aðilinn í síðari hálfleik og náðu mest fjögurra marka forskoti, 25:21, en HK-ingum tókst aldrei að minnka forskot Vals í minna en tvö mörk.
Björgvin Páll varði 18 skot í markinu en þeir Tumi Steinn Rúnarsson og Finnur Ingi Stefánsson skoruðu fimm mörk hvor fyrir Valsmenn.
Einar Bragi Aðalsteinsson fór á kostum í liði HK og skoraði 12 mörk og Hafsteinn Óli Berg Ramos skoraði fimm mörk.
Valur er með 18 stig í fjórða sætinu en HK er með 1 stig í neðsta sætinu.