Leó Snær Pétursson var markahæstur Stjörnunnar þegar liðið vann ellefu marka stórsigur gegn ÍBV í úrvalsdeild karla í handknattleik, Olísdeildinni, í Vestmannaeyjum í þrettándu umferð deildarinnar í kvöld.
Leiknum lauk með 31:20-sigri Garðbæinga en Leó Snær skoraði níu mörk í leiknum, þar af fjögur af vítalínunni.
Jafnræði var með liðunum í fyrri hálfleik og var staðan 12:11, Stjörnunni í vil, í hálfleik. Garðbæingar keyrðu hins vegar yfir Eyjamenn í síðari hálfleik og fögnuðu öruggum sigri.
Björgvin Hólmgeirsson skoraði sjö mörk fyrir Stjörnuna og þá átti Brynjar Darri Baldursson stórleik í markinu og varði 20 skot.
Dagur Arnarsson var markahæstur Eyjamanna með fimm mörk og Björn Viðar Björnsson varði tólf skot í markinu.
Stjarnan fer með sigrinum upp í annað sæti deildarinnar í 18 stig en ÍBV er í fjórða sætinu með 17 stig.