Vörnin og Brynjar Darri unnu þetta

Brynjar Darri Baldursson átti stórleik í marki Stjörnunnar í kvöld.
Brynjar Darri Baldursson átti stórleik í marki Stjörnunnar í kvöld. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Patrekur Jóhannesson, þjálfari Stjörnunnar, var augljóslega ánægður með sigur sinna manna á heimavelli Eyjamanna. Liðin mættust í kvöld í lokaumferð Olísdeildar karla fyrir jólafrí, gestirnir höfðu öll völd á vellinum eftir að þeir tóku forystuna á lokasekúndum fyrri hálfleiks.

„Við vorum varnarlega mjög góðir allan leikinn, Brynjar Darri ver vel en sóknarlega var ég óánægður með okkur í fyrri hálfleik. Við vorum of mikið að spila erfiðar sendingar þvert á völlinn, við fórum þó einnig illa með opin færi. Um leið og við fórum að skjóta rétt á markið, aðeins uppi, þá fóru boltarnir inn. Vörnin vinnur þetta og Brynjar Darri, hann var með 23 bolta eða einhver 50%. 7 á 6 tókst þeim heldur ekki að opna okkur og þetta var frábær leikur hjá mínum mönnum.“

Eyjamenn leiddu allan fyrri hálfleikinn áður en Stjörnumenn tóku öll völd, Patrekur segir það eðlilegt á þessum heimavelli Eyjamanna.

„Enda erum við á heimavelli ÍBV og með þetta lið sem þeir hafa er ósköp eðlilegt að það taki tíma, þeir gáfu aðeins eftir í restina þegar þetta var orðið erfitt. Þeir fóru t.d. í 7 á 6 en við gerðum þetta virkilega vel í dag. Varnarlega sérstaklega og sóknarlega í seinni hálfleik höfðum við alla stjórn á leiknum.“

Bæði lið eru með mjög góða leikmannahópa og ætla sér mikið á tímabilinu, margir leikmenn eru fjarverandi hjá Stjörnunni en Patrekur vill einbeita sér að leikmönnunum sem eru að spila hverju sinni.

„Við höfum tekið þann pólinn í hæðina frá upphafi að það skiptir engu máli, þessir strákar sem hafa verið að spila meira en vanalega hafa nýtt það mjög vel. Þannig býr maður til breidd, það er ekki nóg að hafa leikmenn, heldur þurfa þeir að fá mínútur á gólfinu. Ég er hrikalega ánægður með þá og fer ánægður í fríið, þetta eru þó einungis þrettán leikir sem eru búnir en engu að síður er gott að fara í fríið með svona sigur á móti svona sterku liði á þeirra heimavelli. Þeir sem eru meiddir þurfa að gefa í og þeir sem eru búnir að spila mikið þurfa að endurnærast, það er nýtt undirbúningstímabil í janúar.“

Patrekur hefur unnið Íslandsmeistaratitilinn á fleiri en einum stað og er reyndur í bransanum, er hann með lið í höndunum sem getur unnið titilinn?

„Ég gerði þriggja ára plan, við náðum í fyrra að fara í fyrsta skiptið í sögunni í undanúrslit. Við lentum í 5. sæti í deildinni og vorum klaufar að klára ekki síðasta leik í deildinni og enda ofar. Nú erum við á réttu róli og ég er svo sem ekkert byrjaður að spá í það (hvort liðið geti orðið Íslandsmeistari) en við þurfum að halda áfram okkar vinnu en planið er á réttu róli. Við erum að bæta okkur, það er aðalatriðið en maður er lítið að spá í það strax það er svo mikið eftir af þessu.“

Spennan var mikil í leiknum og voru reyndu leikmenn Stjörnunnar ofan á þegar kom að því að höndla spennustigið rétt.

„Það er alltaf spenna þegar maður kemur til Eyja, það er mikið fjör hérna og maður þarf að vera klár í kollinum. Ég er með Gunnar Stein sem stýrði þessu vel, hann var frábær og ég er mjög ánægður með hann þó hann sé ekki alltaf með 10 mörk í leik. Hann er alltaf að stýra liðinu vel í vörn og sókn, það er mikið álag á honum og spilaði hann 80 mínútur á þriðjudaginn. Björgvin og fleiri, þetta er góð blanda hjá okkur. Þetta er svipuð blanda hjá Eyjamönnum, mér er eiginlega alveg sama hvað menn eru gamlir þetta fer bara eftir því hvernig líkamlegt ástand er og hvernig þeir eru í handbolta.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert