Gamla ljósmyndin: Markinu lokað

Íþrótta­deild Morg­un­blaðsins og mbl.is held­ur áfram að gramsa í mynda­safni Morg­un­blaðsins og birta á mbl.is á laug­ar­dög­um.

Á fimmtán ára tímabili komu tvö mögnuð velgengnisskeið hjá Fram með Kolbrúnu Jóhannsdóttur á milli stanganna. Liðið varð Íslandsmeistari sex ár í röð frá 1975-1980 og aftur frá 1984-1990.

Kolbrún var framúrskarandi leikmaður í íslensku deildinni og má undirstrika það með þeirri staðreynd að fjórum sinnum var hún valin besti leikmaður Íslandsmótsins: 1977, 1985, 1987 og 1988.

Árið 1987 kusu leikmenn í fyrsta skipti leikmann ársins og varð Kolbrún því fyrst til að hljóta þann heiður. Var hún sem sagt kjörin aftur árið eftir. Í fyrri tvö skiptin var valnefnd fyrrverandi landsliðskvenna sem sá um að velja besta leikmanninn. 

Meðfylgjandi mynd er tekin á lokahófi HSÍ á Hótel Borg vorið 1985 þegar Kolbrún veitir viðurkenningunni viðtöku. Í umfjöllun Morgunblaðsins kemur fram að Kolbrún hafi fengið gjafabréf frá Arnarflugi i verðlaun ásamt styttunni sem hún heldur á. Helga Magnúsdóttir lýsti kjörinu en hún átti löngu síðar eftir að setjast í stjórn Handknattleikssambands Evrópu. Á milli þeirra er Ólafur Jónsson landsliðsmaður úr Víkingi. Lengst til vinstri er þjóðþekktur tónlistarmaður, Jón Ólafsson. Myndina tók Friðþjófur Helgason og birtist hún í Morgunblaðinu hinn 3. maí 1985. 

Auðvelt væri að tína til marga stórleiki hjá Kolbrúnu enda var frammistöðu hennar oft lýst þannig í fjölmiðlum að hún hafi lokað markinu. Ein athyglisverðasta frammistaða Kolbrúnar kom gegn sænska liðinu Stockholm Polizen í Evrópukeppni meistaraliða árið 1990. Kolbrún fékk aðeins á sig 18 mörk og Fram sigraði með átta marka mun og komast áfram í næstu umferð keppninnar. Í Frambókinni sem Stefán Pálsson ritaði kemur fram að forráðamenn Fram höfðu eftir sænska landsliðsþjálfaranum sem sótti leikinn að Kolbrún væri besti markvörður heims.

A-landsleikir Kolbrúnar urðu 83 talsins en hún var fyrsti markvörður landsliðsins um árabil.  Kolbrún lék allan sinn feril með Fram. Leikir hennar fyrir meistaraflokk félagsins urðu á sjöunda hundraðið þegar upp var staðið sem er væntanlega með því mesta sem þekkist hérlendis.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert