Forsetinn gerði sig að fífli

Norðmenn fagna heimsmeistaratitilinum.
Norðmenn fagna heimsmeistaratitilinum. AFP

Hassan Moustafa, forseti Alþjóðahandknattleikssambandsins, gerði sig að algjöru fífli eftir úrslitaleik Frakklands og Noregs á heimsmeistaramóti kvenna í Granollers á Spáni í gær.

Leiknum lauk með öruggum 29:22-sigri norska liðsins en Þórir Hergeirsson er þjálfari Noregs og var þetta þriðji heimsmeistaratitill Noregs undir stjórn Þóris.

Moustafa hélt ræðu eftir leikinn sem hefur farið eins og eldur í sinu um veraldarvefinn en margir vilja að forsetinn segi af sér eftir atburði gærdagsins.

„Ég lýsi því hér með yfir að Noregur er heimsmeistari,“ sagði Moustafa í ræðu sinni.

„Og Danmörk, og Danmörk hafnaði í öðru sæti, og Frakkland varð í því þriðja. Ég óska öllum liðum til hamingju með árangurinn.“

Danmörk lagði Spán að velli í leik um 3. sæti keppninnar í Granollers á Spáni en áhorfendur á Spáni létu forsetann heyra það eftir ræðuna. Þá reyndi aðstoðarmaður hans einnig að útskýra fyrir honum að Frakkland hefði endaði í öðru sæti keppninnar.

„Annað sætið til Danmerkur, ég skil þetta ekki,“ bætti Moustafa við en hann hefur verið forseti Alþjóðahandknattleikssambandsins frá árinu 2000.

Hassan Moustafa, forseti Alþjóðahandknattleikssambandsins.
Hassan Moustafa, forseti Alþjóðahandknattleikssambandsins. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert