Handknattleiksþjálfarinn Ágúst Jóhannsson verður áfram þjálfari kvennaliðs Vals til sumarsins 2025 en hann hefur nú framlengt samning sinn til þess tíma.
Valsmenn skýrðu frá þessu á samfélagsmiðlum sínum núna í hádeginu.
Ágúst hefur þjálfað Valsliðið frá 2017 og það varð Íslands-, deildar- og bikarmeistari undir hans stjórn árið 2019, deildarmeistari 2018 og lék til úrslita um Íslandsmeistaratitilinn við KA/Þór á síðasta tímabili.
Ágúst er jafnframt aðstoðarþjálfari kvennalandsliðs Íslands og verður einnig í þjálfarateymi karlalandsliðsins á Evrópumótinu í Ungverjalandi í næsta mánuði.