Guðmundur Þ. Guðmundsson, landsliðsþjálfari karla í handknattleik, sagði á blaðamannafundi í dag að lokakeppni EM í Ungverjalandi í janúar gæti orðið skemmtilegt mót fyrir Ísland ef ekki verða mikil skakkaföll í íslenska hópnum.
Guðmundur sagði að ýmislegt gæti komið upp á tímum heimsfaraldursins og menn yrðu að vona að veiran fari ekki að gera liðinu grikk. Auk þess megi lið illa við því að margir leikmenn meiðist skömmu fyrir mót og vonandi skili menn sér heilir úr atvinnumennskunni í landsliðsverkefnið. Bendir hann á að á HM í Egyptalandi í upphafi árs hafi meiðsli sett strik í reikninginn enda hafi leikmenn eins og Aron Pálmarsson og Haukur Þrastarson verið á sjúkralistanum. Janus Daði Smárason og Alexander Petersson hafi í framhaldinu dottið út vegna meiðsla.
Niðurstaðan á HM, 20. sæti, hafi ekki verið góð en EM í Ungverjalandi gæti orðið skemmtilegt mót fyrir Ísland ef liðið lendir ekki í skakkaföllum.
Haukur Þrastarson er ekki í hópnum en hann hefur ekki komist á fulla ferð með Kielce eftir krossbandsslit. Haukur gat lítið beitt sér þegar landsliðið kom saman í nóvember en þá hafði hann tognað á ökkla. Haukur er með efnilegustu leikmönnum sem fram hafa komið hérlendis á síðustu árum og Guðmundur sagðist hafa verið í miklu sambandi við Hauk undanfarið.
Guðmundur sagðist meta stöðuna þannig að Haukur eigi enn nokkuð í land til að ná fullum styrk eftir krossbandsslitið þótt hann hafi komið við sögu hjá Kielce á tímabilinu. En Guðmundur áréttar að Haukur sé í 35 manna hópnum og því sé hægt að kalla hann inn í hópinn eins og fleiri ef ástæða þykir til.