Guðmundur valdi 20 leikmenn

Hornamaðurinn Orri Freyr Þorkelsson er á leið á sitt fyrsta …
Hornamaðurinn Orri Freyr Þorkelsson er á leið á sitt fyrsta stórmót

Guðmundur Þ. Guðmundsson þjálfari karlalandsliðsins í handknattleik tilkynnti í dag 20 manna hóp sinn fyrir lokakeppni Evrópumótsins sem fram fer í Ungverjalandi í næsta mánuði.

Orri Freyr Þorkelsson, hornamaður úr Elverum í Noregi, og Elvar Ásgeirsson, leikstjórnandi Nancy í Frakklandi, eru á leið á sitt fyrsta stórmót. Orri hefur leikið einn landsleik en Elvar engan.

Guðmundur sagði um leið og hann kynnti hópinn að Orri kæmi í stað Hákons Daða Styrmissonar, leikmanns Gummersbach, sem sleit krossband í hné á dögunum. Haukur Þrastarson er heldur ekki tilbúinn í slaginn á EM vegna meiðsla.

Hópurinn er þannig skipaður:

Markverðir:
Ágúst Elí Björgvinsson, Kolding
Björgvin Páll Gústavsson, Val
Viktor Gísli Hallgrímsson, GOG

Vinstra horn:
Bjarki Már Elísson, Lemgo
Orri Freyr Þorkelsson, Elverum

Vinstri skyttur:
Aron Pálmarsson, Aalborg
Ólafur A. Guðmundsson, Montpellier
Elvar Örn Jónsson, Melsungen

Leikstjórnendur:
Gísli Þorgeir Kristjánsson, Magdeburg
Elvar Ásgeirsson, Nancy
Janus Daði Smárason, Göppingen

Hægri skyttur:
Kristján Örn Kristjánsson, Aix
Ómar Ingi Magnússon, Magdeburg

Hægra horn:
Sigvaldi Björn Guðjónsson, Kielce
Teitur Örn Einarsson, Flensburg
Viggó Kristjánsson, Stuttgart

Línu- og varnarmenn:
Arnar Freyr Arnarsson, Melsungen
Elliði Snær Viðarsson, Gummersbach
Sveinn Jóhannsson, SönderjyskE
Ýmir Örn Gíslason, RN Löwen

Teitur Örn og Viggó eru skyttur að upplagi en Guðmundur sagði að þeir myndu leysa Sigvalda Björn af í hægra horninu, ásamt því að vera klárir í sínar hefðbundu skyttustöðu.

Guðmundur getur síðan kallað í leikmenn úr hópi þeirra fimmtán sem hann valdi í upphafshópinn, 35 manna, fyrr í þessum mánuði, ef hann þarf að skipta um leikmenn eftir að mótið er hafið.

Ísland er í riðli með Portúgal, Hollandi og Ungverjaland og mætir þessum liðum 14., 16. og 18. janúar í Búdapest. Tvö efstu liðin halda áfram keppni og komast í milliriðla mótsins.

Liðið kemur saman til æfinga hér á landi sunnudaginn 2. janúar og mætir Litháen í vináttulandsleikjum 7. og 9. janúar áður en haldið verður til Búdapest 11. janúar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert