Jafnteflið kveikti í okkur

Þórir Hergeirsson og lærikonur hans í norska landsliðinu slógu ríkjandi …
Þórir Hergeirsson og lærikonur hans í norska landsliðinu slógu ríkjandi heimsmeistara í Hollandi úr leik í milliriðli á HM. AFP

„Leikurinn gegn Hollandi var bara hreinn úrslitaleikur, svo einfalt var það,“ sagði Þórir Hergeirsson, þjálfari kvennaliðs Noregs í handknattleiks og nýkrýndur heimsmeistari, í samtali við mbl.is.

Noregur varð heimsmeistari á sunnudaginn síðasta eftir 29:22-sigur gegn Frakklandi í úrslitaleik í Granollers á Spáni.

Til þess að komast upp úr milliriðli á mótinu þurfti Noregur að vinna ríkjandi heimsmeistara Hollands eftir nokkuð óvænt jafntefli gegn Svíþjóð, 30:30, í öðrum leik sínum í milliriðli.

Norska liðið vann 37:34-sigur gegn Hollandi og fór áfram á kostnað hollenska liðsins sem sat eftir með sárt ennið og komst ekki áfram í átta-liða úrslitin.

„Það má líka segja að jafnteflið gegn Svíþjóð hafi kveikt vel í okkur og einbeitingin innan leikmannahópsins jókst til muna eftir þau úrslit,“ sagði Þórir.

„Við byrjuðum leikinn á móti Hollandi mjög illa enda vissum við það fyrirfram að þær myndu mæta brjálaðar til leiks. Það voru nokkrir hlutir okkar megin sem voru ekki að virka nægilega vel og við vorum lentar fimm til sex mörkum undir eftir fimmtán mínútna leik.

Við breyttum nokkrum atriðum og á næsta hálftíma kafla vorum við allt í einu að vinna þær með tíu marka mun. Tilfinningin var því sú að við værum að tapa leiknum á eigin klaufaskap og við vorum því alltaf sannfærð um að við myndum snúa leiknum okkur í hag,“ bætti Þórir við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert