Sá nýjasti er alltaf sá sætasti

Þórir Hergeirsson, landsliðsþjálfari Noregs.
Þórir Hergeirsson, landsliðsþjálfari Noregs. AFP

„Nýjasti bikarinn er alltaf sá sætasti enda verður maður að lifa í núinu,“ sagði Þórir Hergeirsson, þjálfari heimsmeistara Noregs í handknattleik kvenna, í samtali við mbl.is.

Þórir stýrði Noregi til sigurs á heimsmeistaramótinu sem fram fór á Spáni á dögunum en liðið vann öruggan 29:22-sigur gegn Frakklandi í úrslitaleik í Granollers á sunnudaginn.

Þetta var jafnframt í þriðja sinn sem liðið verður heimsmeistari undir stjórn Þóris sem tók við norska liðinu árið 2009.

„Það væri agalegt ef maður væri ekki stoltur og glaður yfir árangrinum sem maður var að ná,“ sagði Þórir.

„Ég held satt best að segja að ein af ástæðunum fyrir því að ég er búinn að endast jafn lengi í þessu og raun ber vitni séu sú ég dvel ekki mikið við þann árangur sem náðst hefur í gegnum tíðina.

Ég eyði mjög litlum tíma í það að hugsa aftur í tímann heldur einbeiti ég mér að því að horfa fram veginn og ég fer strax í það að hugsa um og skipuleggja næsta mót núna milli jóla og nýárs reikna ég með.

Vissulega kryfjum við öll mót sem við tökum þátt í og tökum með okkur það sem vel er gert og reynum að bæta það sem hefur miður farið. Það er mikilvægt að liðið haldi áfram að bæta sig og verði betra á morgun en það var í gær,“ sagði Þórir í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert