Handknattleiksþjálfarinn Þórir Hergeirsson stýrði norska kvennalandsliðinu til sigurs á heimsmeistaramótinu á Spáni um nýliðna helgi.
Þórir, sem er 57 ára gamall, hefur starfað hjá norska handknattleikssambandinu frá árinu 2000. Fyrst sem aðstoðarþjálfari kvennalandsliðsins frá 2000 til ársins 2009 þegar hann var ráðinn þjálfari liðsins.
Þjálfarinn hefur náð undraverðum árangri með norska landsliðið en Noregur tapaði ekki leik á heimsmeistaramótinu í ár og vann sannfærandi sigur gegn Frakklandi í úrslitaleik í Granollers á Spáni á sunnudaginn, 29:22.
„Við spiluðum á ákveðnum leikmannakjarna á HM en við notuðum líka nýja leikmenn á mótinu, meðal annars í hjarta varnarinnar,“ sagði Þórir í samtali við Morgunblaðið.
„Það voru því leikmenn hjá okkur sem voru að stíga sín fyrstu skref á stórmóti en þeir voru samt sem áður í mjög stórum hlutverkum eins og Maren Aardahl. Það tekur alltaf tíma fyrir nýja leikmenn að koma inn í þetta og aðrir leikmenn fengu líka ný hlutverk.
Það tók okkur smá tíma að finna okkar besta lið, bæði í vörn og sókn, og það voru ákveðnar hræringar í gangi hjá okkur um tíma. Miðað við allt sem gekk á þá er ég mjög ánægður með tapa ekki leik á mótinu þótt okkur hafi aðeins liðið eins og við hefðum tapað á móti Svíþjóð,“ en Noregur og Svíþjóð gerðu 30:30-jafntefli í öðrum leik sínum í milliriðli 2 á mótinu.
Þórir viðurkennir að það séu hæðir og lægðir í þjálfarastarfinu þrátt fyrir frábæran árangur undanfarinn áratug.
„Það er ekki alltaf gaman að mæta í vinnuna en þannig er það bara með allar vinnur held ég. Stundum þarf maður að moka skít, daginn út og daginn inn, sér í lagi þegar maður er með skítinn alveg upp á höku. Stundum gengur illa og þá þarf að taka vel til enda alltaf eitthvað sem betur má fara. Þá þýðir ekki að vera með eitthvert væl og þá er mikilvægt að mæta ekki með hangandi haus í vinnuna en það er eins með þetta og allt annað; það eru góðir og slæmir dagar.“
Viðtalið í heild sinni má sjá á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag.