Þýska handknattleikssambandið tilkynnti í dag að samningur við Alfreð Gíslason um þjálfun karlalandsliðs Þýskalands hefði verið framlengdur til sumarsins 2024.
Alfreð tók við þýska liðinu í febrúar 2020, eftir síðasta Evrópumót, og var með það á HM í Egyptalandi í byrjun þessa árs þar sem það endaði í tólfta sæti, sem og á Ólympíuleikunum í Tókýó þar sem það féll út í átta liða úrslitum. Nú er hann á leið með mikið breytt lið á EM 2022 en fjölmarga burðarása vantar í þýska liðið sem spilar þar.
Alfreð hefur verið í fararbroddi í þjálfun í Þýskalandi frá árinu 1997 þegar hann tók við liði Hameln. Hann var síðan með Magdeburg í sjö ár, Gummersbach í tvö ár og Kiel í ellefu ár og vann þýska meistaratitilinn sex sinnum með Kiel og einu sinni með Magdeburg, og var fjórum sinnum kjörinn besti þjálfari Þýskalands. Þá vann hann Meistaradeild Evrópu tvisvar með Kiel.