Íþróttahöllin sem Ísland mun spila í á EM karla í handknattleik í Búdapest í janúar er tilbúin eftir tveggja ára framkvæmdir.
Höllin er stórglæsileg og mun geta tekið 20 þúsund manns í sæti. Höllin var byggð vegna ýmissa alþjóðlegra handboltaverkefna sem fram undan eru í Ungverjalandi og er þar af leiðandi sögð vera stærsta handboltahöll í Evrópu.
Ísland mun leika þrjá leiki í höllinni í riðlakeppninni enda eru Íslendingar með gestgjöfunum Ungverjum í riðli en einnig Portúgölum og Hollendingum.
Í janúar halda Ungverjar EM karla ásamt Slóvökum en fleira er fram undan. EM kvenna í handknattleik fer fram í Ungverjalandi 2024 og HM kvenna árið 2027. Þá verður höllin nýtt en einnig næsta vor í úrslitahelginni í Meistaradeild kvenna í handknattleik.
Framkvæmdir hófust í september árið 2019 og 16. desember síðastliðinn var mannvirkið formlega tilbúið.
Fyrir utan handbolta verður einnig keppt í íshokkíi í höllinni. Auk þess býður höllin upp á möguleika fyrir flestar inniíþróttir.