Gat gert alla gráhærða

Anja Andersen á hliðarlínunni.
Anja Andersen á hliðarlínunni. Reuters

Anja Andersen er eitt mesta ólíkindatól sem komið hefur fram á sjónarsviðið í handknattleiksíþróttinni. Geysilega umdeild persóna enda einstaklega hæfileikarík íþróttakona sem kom sér oft í vandræði. 

HC Andersen er ekki eini snillingurinn sem fæðst hefur í Óðinsvéum. Þar fæddist Anja Andersen hinn 15. febrúar árið 1969. Hugmyndaflug Andersen á handboltavellinum var ekki lítið en þar lýkur líklega upptalningunni á því sem þessir tveir Danir eiga sameiginlegt. 

Meistaraflokksferillinn hófst hjá Andersen árið 1986 eða sama ár og Ísland burstaði Danmörku 25:16 á HM karla í handknattleik í Sviss. Andersen lék fyrst með Álaborg eitt tímabil, næsta tímabil með Ikast og árið 1989 var hún hjá Viborg. 

Norska deildin var mjög sterk á tíunda áratugnum og þar var Anja Andersen hjá Bækkelaget frá 1989-1993. Andersen lék einnig í Þýskalandi og var hjá Walle Bremen frá 1993-1996. Þar varð hún þýskur meistari. Anja Andersen sneri aftur til Bækkelaget í Noregi og lauk ferlinum með liðinu 1996-1999. Tímabilið 1996-1997 var liðsfélagi hennar úr danska landsliðinu, Camilla Andersen, einnig hjá Bækkelaget. Liðinu tókst þó ekki að verða norskur meistari 1997 því Larvik varð meistari undir stjórn Kristjáns Halldórssonar. Anja Andersen varð hins vegar norskur meistari með Bækkelaget 1992 og 1999. 

Gullverðlaun á öllum stórmótunum

Árangur danska landsliðsins hafði líklega meiri áhrif á hversu skært frægðarsól Önju Andersen skein á tíunda áratugnum. Danska liðið náði þeim ótrúlega árangri að vera Evrópu-, heims- og ólympíumeistari á sama tíma. Danmörk varð Evrópumeistari bæði 1994 og aftur 1996.

Sumarið 1996 varð Danmörk ólympíumeistari í Atlanta í Bandaríkjunum og árið eftir varð liðið heimsmeistari í Þýskalandi. Liðið hafði áður komist nærri því og vann til bronsverðlauna á HM 1995 og til silfurverðlauna á HM 1993. 

Ulrik Wilbek í Laugardalshöllinni.
Ulrik Wilbek í Laugardalshöllinni. mbl.is/Jakob Fannar Sigurðsson

Gjarnan er talað um að danskur handknattleikur hafi verið reistur við á tíunda áratugnum og þá voru vinsældir danska kvennalandsliðsins mun meiri en karlalandsliðsins. Enda var ólíku saman að jafna hvað árangurinn snerti á þeim tíma. Velgengni kvennalandsliðsins opnaði í framhaldinu ýmsar dyr fyrir þáverandi þjálfara þess. Þjálfara sem íslenskir handboltaunnendur þekkja vel, Ulrik Wilbek. 

Skemmtikraftur sem náði árangri

Þegar Andersen tókst vel upp var hún stórkostlegur leikmaður. Hún gat skemmt áhorfendum með alls kyns tilþrifum og í leikjum sem höfðu minni þýðingu skoraði hún mörk í alls kyns útgáfum. Sum þeirra voru þess eðlis að ekki þurfti einungis afburða tækni til að framkvæma heldur þurfti einnig talsvert hugmyndaflug. Sögur af henni bárust á þeim tíma til handboltaáhugafólks á Íslandi frá fólki sem var búsett í Danmörku eða Noregi. Löngu síðar hafa alls kyns syrpur á Youtube rennt öruggari stöðum undir lýsingarnar sem á köflum þóttu lygilegar. 

Anja Andersen með sigurlaunin á HM 1997.
Anja Andersen með sigurlaunin á HM 1997. Skjáskot

En það sem ef til vill skiptir meira máli er að Andersen náði einnig árangri. Hún var helsta vopn danska liðsins sem náði þrennunni sem flest landslið láta sig einungis dreyma um; að vera ólympíu-, heims- og Evrópumeistari á sama tíma. Hún gat því skorað glæsileg mörk en lék af skynsemi þegar við átti.

Anja Andersen hefur fengið ýmsar vegtyllur. Hún var til að mynda valin besta handknattleikskona heims árið 1997. Enn þann dag í dag er hún eina danska konan sem hefur verið valin og fram til ársins 2012 eini danski leikmaðurinn sem hafði verið sýndur þessi heiður. Tíu árum síðar var hún valin í Frægðarhöllina hjá danska íþróttasambandinu. Hún og knattspyrnukappinn Michael Laudrup voru þá valin á sama tíma. 

Á ýmsu gekk

Í inngangi greinarinnar var þess getið að Andersen hafi verið umdeild. Er það ekki að ástæðulausu. Hún bar tilfinningarnar utan á sér á vellinum og á leikmannsferlinum urðu ýmsar uppákomur þegar hún kom skoðunum sínum á framfæri við dómarana, þjálfara eða leikmenn. Stundum var sagt að hún gæti gert alla gráhærða í kringum sig í handboltanum. Þannig var það meira að segja orðað þegar hún var innlimuð í Frægðarhöllina. 

 

Anja Andersen þakkar fyrir sig eftir útileik í Evrópukeppni með …
Anja Andersen þakkar fyrir sig eftir útileik í Evrópukeppni með norska liðinu Bækkelaget.

 

Þegar Danir unnu Þjóðverja í úrslitaleik EM árið 1994 fékk hún til dæmis rauða spjaldið á  lokakaflanum. Og þó voru Danir í sókn. Andersen var slegin í andlitið og skömmu áður hafði hún verið tekin eins konar hálstaki þegar hún skoraði eftir gegnumbrot.

Þar brast eitthvað í okkar konu og eftir að hafa lýst skoðunum sínum fékk hún rauða spjaldið. Þegar samherji leiddi hana af velli, og Andersen hafði gert sér grein fyrir afleiðingunum, þá brast hún í grát. Sem betur fer fyrir hana og danska liðið var lítið eftir af leiknum. En þetta er ágætt dæmi um hversu óútreiknanleg hún gat verið. Hún hafði takmarkaða stjórn á skapinu og var það hennar stærsti löstur. 

Náði miklum árangri í þjálfun

Skapsmunir Önju Andersen hurfu ekki úr umræðunni þegar leikmannsferlinum sleppti. Hún lagði skóna á hilluna árið 1999 eftir að hafa greinst með hjartagalla. Hún hætti því þrítug og sem norskur meistari. En þá tók nefnilega þjálfaraferillinn við. Eins og á leikmannsferlinum vann hún stóra sigra en var einnig í sviðsljósinu fyrir síður skemmtilega tilburði. 

Árangur Andersen sem þjálfari danska liðsins Slagelse var stórglæsilegur. Liðið varð danskur meistari undir hennar stjórn á árunum 2003 til 2007. Liðið sigraði einnig þrívegis í Meistaradeild Evrópu og einu sinni í EHF-bikarnum. Hún tók við liðinu í næstefstu deild og varð það sem sagt í framhaldinu fjórum sinnum Evrópumeistari. 

Anja Andersen þegar hún var við störf í Kaupmannahöfn.
Anja Andersen þegar hún var við störf í Kaupmannahöfn. heimsíða FCK

Slagelse sigldi þó ekki lygnan sjó með Önju Andersen sem þjálfara. Hvernig hefði slíkt mátt vera? Lengst gekk hún í leik Slagelse og Álaborgar árið 2006. Leikmenn liðsins voru óánægðir með dómgæsluna og fékk einn leikmaðurinn tveggja mínútna brottvísun fyrir mótmæli þegar mínúta var eftir af fyrri hálfleik. Andersen blandaði sér í málið og fékk fljótlega rauða spjaldið. Eftir á kom fram að hún hefði gripið í handlegg annars dómarans.

Andersen var svo heiftarlega misboðið að hún kallaði lið sitt einfaldlega af velli. Hjá aganefnd danska handknattleikssambandsins höfðu nefndarmenn takmarkaðan húmor fyrir tiltækinu og var Andersen úrskurðuð í eins árs bann frá íþróttinni. 

Fyrir hvað verður hennar minnst?

Anja Andersen þjálfaði síðast árið 2015 en á þjálfaraferlinum stýrði hún einnig FC Kaupmannahöfn, Odense, Oltchim Ramnicu Valcea í Rúmeníu og serbneska landsliðinu. Þá var hún einnig aðstoðarþjálfari karlaliðs Viborgar frá 2011-2012. Síðast var hún hjá Odense. 

Tíminn verður að leiða í ljós hvort Önju Andersen verði oftar minnst fyrir uppákomurnar eða snillina en ekki verður frá henni tekið að hún var afburðaleikmaður hvort sem persónan féll fólki í geð eður ei. Leikmaður sem var sigurvegari og skemmtikraftur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka